Suðurlandsmót grunnskóla í skák fór fram á Stað á Eyrarbakka mánudaginn 22. maí. Mikil gróska er í skákíþróttinni um þessar mundir og var þátttaka á mótinu með besta móti. 27 keppendur öttu kappi í 1.-4.bekk, 40 í 5.-7.bekk og 24 í 8.-10.bekk eða alls 91 keppandi! Þátttökuskólar voru 10 og áttu heimamenn í BES langflesta keppendur en Flúðaskóli átti einnig góðan hóp, 18 nemendur skólans skráðu sig til leiks.
Í yngsta flokki kepptu fyrir hönd Flúðaskóla Brynjar Logi 1.bekk og bekkjarbræðurnir Fannar, Garðar, Kacper, Loftur og Óttar úr 3.bekk. Þeir Fannar, Garðar og Loftur voru í toppbaráttunni allan tímann og fór svo að lokum að Loftur hreppti silfrið, með 6 vinninga, jafnmarga og Suðurlandsmeistarinn Adam Stefán úr BES. Fannar hafnaði í 4. sæti með 5 vinninga eins og Styrmir BES-ingur sem landaði 3.sætinu. Garðar endaði í 9.sæti með 4 vinninga rétt eins og Byrnjar og Kacper sem enduðu í 12. og 13.sæti. Óttar var skammt undan með 3 vinninga í 19.sæti á sínu fyrsta móti utan sveitar. Sannarlega glæsilegur árangur hjá öllum drengjunum.
Á miðstiginu áttum við 4 fulltrúa, þá Andra, Daniel, Stefán og Þorgeir. Þar náðist frábær árangur en okkar menn voru allir á meðal þeirra 7 efstu í langfjölmennasta flokknum. Stefán Fannar og Þorgeir Elís töpuðu aðeins einni skák, rétt eins og tveir efstu keppendurnir. Lokaniðurröðun var sem sagt sú að Stefán fékk bronsið og Þorgeir mátti láta 4.sætið duga að þessu sinni. Daniel hafnaði í 6.sæti og Andri í því 7. báðir með 5 vinninga. Unnsteinn Magni úr Reykholtsskóla stóð uppi sem sigurvegari í þessum flokki og Magnús Tryggvi úr Vallaskóla hreppti silfrið.
Unglingarnir okkar hafa verið duglegir að æfa sig og áttu marga góða spretti þrátt fyrir að hafa ekki náð á pall að þessu sinni. Var tíminn stundum að renna þeim úr greipum en aðeins var 5 mínútna umhugsunartími að þessu sinni. Vésteinn náði besta árangrinum af nemendum Flúðaskóla, 6.sæti, Magnús Arngrímur endaði í 8.sæti, Ástbjört Magnúsdóttir var eina stúlkan í elsta flokknum og landaði 10.sæti - vel gert. Sigurður Emil endaði í 11. og félagarnir Magnús Þór, Patryk Zenon og Emil Rafn röðuðu sér í 17., 18. og 19. sæti allir með 2,5 vinning. Að þessu sinni fór bikarinn til Eyja en Sæþór Ingi vann allar sínar viðureignir, Guðbergur Davíð úr Flóaskóla hreppti silfrið og Kristján Kári úr Sunnulækjarskóla fékk bronsið.
Virkilega fllott framkvæmd á mótinu hjá Skáksambandi Íslands í Barnaskólanum á Eyrarbakka og Stokkseyri þar sem verið er að vinna alveg frábært starf í skákinni svo eftir er tekið. Raunar var gaman að sjá hversu vel var mætt á mótið og margir mjög áhugasamir skákmenn að fá tækifæri í skákinni í gegnum skólana sína sem er vel!