Um okkur

Flúðaskóli er einsetinn dreifbýlisskóli fyrir nemendur í 1. – 10. bekk. Nemendur úr 9. og 10. bekk frá Skeiða- og
Gnúpverjahreppi eru einnig í skólanum.
Skólinn var í upphafi staðsettur í landi Hellisholta vegna jarðhitans þar. Flúðaskóli var
einn af fyrstu heimavistarskólum landsins, stofnaður 1929. Nafnið Flúðir er dregið af
tilkomumiklum flúðum sem voru í Hellisholtalæknum í nánd við skólahúsnæðið.
Þessar flúðir eru nú horfnar. Árið 1964 var hafist handa við að byggja núverandi
húsnæði eftir teikningu Skúla Norðdahl og var því lokið 1968. Heimavist var í
skólanum um 60 ára skeið en nú eru þar kennslustofur og starfsaðstaða kennara.
Þéttbýliskjarninn Flúðir hefur myndast í kringum skólann, þar sem atvinnulíf hefur
dafnað einkum og sér í lagi vegna mikils jarðhita. Margar náttúruperlur eru í
nágrenni skólans og leggur skólinn áherslu á að nýta sér þá staði til náttúruskoðunar
og gönguferða.
Á Flúðum voru ýmsir dýrgripir Landsbókasafns Íslands og Þjóðskjalasafns geymdir í
heimstyrjöldinni síðari ef ske kynni að loftárás yrði gerð á Reykjavík.
Einkunnarorð skólans eru Virðing – Vitneskja og leggur starfsfólk skólans metnað
sinn í að framfylgja þeim.
Flúðaskóli leggur áherslu á útikennslu og tengsl við samfélagið. Útikennslustofa er í
grenndarskógi skólans sem er Kvenfélagsskógurinn við Hellisholtalæk.
Skólinn er formlegur þátttakandi í verkefninu „Heilsueflandi skóli“ en markmið
verkefnisins er meðal annars að stuðla að góðri heilsu og líðan nemenda og
starfsfólks.
Tónlistarskóli Árnesinga og Tónsmiðja Suðurlands eru með tónlistarkennslu á Flúðum
í samstarfi við skólann. Nemendur eiga þess kost að stunda tónlistarnám á skólatíma.
Íþróttahús var tekið í notkun í ársbyrjun 1993, og það tvöfaldað að stærð árið 2015.
Sundlaug er nálægt skólanum og hafa nemendur fengið reglubundna sundkennslu frá
árinu 1949.