Myndasýning frá Danmerkurferð fimmtudaginn 7. desember kl. 17:00

Nemendur í 10. bekk Flúðaskóla bjóða öllum þeim sem áhuga hafa, að koma og sjá ferðasögu þeirra frá Danmerkurferðinni í máli og myndum í Félagsheimili Hrunamanna, fimmtudaginn 7. desember kl. 17.00.

Árgangur 2008 sem nú er í 10. bekk í Flúðaskóla, heimsótti samstarfsskóla sinn í Holbæk nú á haustdögum. Verkefnið Slam, hófst þar formlega með því að gera bæði ýmis verkefni sem snúa að sjálfbærni og jafnframt að heimsækja hreinsistöð sem vinnur á svipaðan hátt og Seyruverkefnið á Flúðum.
Dagarnir í Holbæk þar sem íslesku og dönsku nemendurnir kynntust náið í gegnum ýmis verkefni og allskonar leiki og samveru, gáfu fyrirheit um að meðvitundin um sjálfbærni væri opin, norrænt samstarf og mikilvægi þess væri ljóst og að flest ungmenni þessara skóla væru meðvituð um að ábyrgð á framtíðinni, væri þeirra.
Nánari kynning á verkefninu Slam mun verða eftir áramót en hægt er að lesa um samstarfið við Seyruverkefnið inni á www.seyra.is
Seinni hluta ferðarinnar var dvalið í Kaupmannahöfn þar sem nemendur kynntu staði og byggingar sem þau höfðu kynnt sér náið áður en ferðalagið hófst og mun sú dvöl væntanlega verða nemendum algjörlega ógleymanleg um aldur og ævi.

Þakkir

Það er ákaflega þroskandi og gefandi fyrir nemendurna að standa sjálf að fjáröflun í svona mikilvægu verkefni eins og Danmerkurferð er. Þannig verða þau meðvituð um að svona ferðalag kostar pening og að þeirra framlag við fjáröflunina er því afar mikilvægur. Dósasöfnunin er þannig mikilvægur undirbúningur og hvatning fyrir hópinn í heild sinni og er í raun fyrsta skref hópsins í sameiginlegu ferðalagi til Danmerkur. Jafnframt styrkir það félagsþroska þeirra þegar hópurinn hittist allur saman ásamt aðstandendum og telja og flokka dósirnar. Það myndast oft gríðarlega skemmtileg stemning þegar allur hópurinn hittist og er að telja dósir. Stolt senda þau síðan dósirnar í endurvinnslu og njóta uppskerunnar í ríkum mæli í Danmörku.

10. bekkkur í Flúðaskóla og þeirra aðstandendur vilja þakka fyrir allan þann stuðning sem þau hafa fengið í gegnum dósasöfnunina í Hrunamannahreppi og Skeiða-og Gnúpverjahreppi. Það er ómetanlegur stuðningur sem nemendur hafa svo sannarlega notið góðs af.

Að öllum öðrum ólöstuðum fær Eimskip sérstakar þakkir fyrir frábæran stuðning við flutning á dósum.

Hlökkum til að sjá sem flesta á myndasýningunni, 7. desember í Félagsheimili Hrunamanna kl. 17.00.

 

10. bekkur Flúðaskóla.
Anna og Sigga Steina, umsjónarmenn Slam.