Fimmtudaginn 2. nóvember fóru fram miðstigs smiðjur í Flúðaskóla. Var þetta í fyrsta sinn sem að Flúðaskóli er gestgjafi á sameiginlegum smiðjum með nágrannaskólunum. Kennarar á miðstigi í Flúðaskóla og Þjórsárskóla unnu saman að skipulagi dagsins og er óhætt að segja að það samstarf hafi reynst farsælt. Rúmlega 90 nemendur úr Kerhólsskóla, Reykholtsskóla, Bláskógaskóla Laugarvatni, Flúðaskóla og Þjórsárskóla völdu sér smiðju til að vinna í. Dreifing milli smiðja var góð enda fjölbreytni verkefna meiri þegar svona margir koma saman. Nemendur gátu valið á milli boltasmiðju, hestasmiðju, útismiðju, myndmenntarsmiðju, textíl-/skrímslasmiðju og félagsvistarsmiðju. Að lokum komu allir saman í íþróttahúsinu okkar og áttu góða stund. Við þökkum flottum nemendum úr nágrannaskólum sem og góðu starfsfólki þeirra kærlega fyrir komuna og hlökkum til áframhaldandi samstarfs með þeim.
Á sama tíma og miðstigið var í smiðjum á Flúðum héldu unglingarnir okkar til Reykjavíkur í menningarferð. Að þessu sinni var skipulag og utanumhald í öruggum höndum starfsfólks Reykholtsskóla sem smíðuðu glæsilega dagskrá fyrir alla unglinga í Flúðaskóla, Reykholtsskóla, Bláskógaskóla Laugarvatni og Kerhólsskóla. Nemendur byrjuðu á því að koma við í Skálholtskirkju, skoðuðu þar m.a. steindu gluggana eftir Gerði Helgadóttur altaristöfluna/mósaíkmyndina eftir Nínu Tryggvadóttur. Í Tollhúsinu í Reykjavík er sýning á verkum Gerðar og nemendur kíktu þar við. Alþingi var heimsótt, Perlufestin (skúlptúrar) í Hljómskálagarðinum var skoðuð, Friðarsúla Yoko Ono var kynnt fyrir nemendum auk þess sem fari var á mynlistarsýningu í Hafnarhúsinu. Nemendur fengu frjálsan tíma í borginni sem þeir nýttu með mismunandi hætti, sumir skelltu sér í sund, einhverjir fóru og fengu sér ís á meðan sumir létu sér nægja að dunda sér í farfuglaheimilinu í Laugardal. Mikla lukku vakti handboltaleikur Fram og Vals í Olísdeild kvenna í Úlfarsárdal þar sem okkar fólk studdi vel við bakið á Framstúlkum sem höfðu boðið okkur á leikinn. Því miður dugði okkar stuðningur ekki að þessu sinni en skemmtileg upplifun fyrir nemendur að sjá þessar afrekskonur eigast við í toppbaráttu handboltans á Íslandi. Á föstudeginum fengu nemendur að fylgjast með kór Menntaskólans við Hamrahlíð á æfingu og hlýða á þann magnaða kór. Kórstjórinn, Hreiðar Ingi, kynnti kórinn og nemendur fengu að hlýða á nokkur íslensk kóralög. Ferðin var svo fullkomnuð með tónleikum Ásgeirs Trausta og Sinfó í Hörpunni.
Næstu smiðjur verða 1.-2. febrúar. Miðstigð verður á Laugarvatni á meðan við í Flúðaskóla fáum að taka á móti unglingadeildinni.