Þann 16. nóvember síðastliðinn var mikið um að vera hjá okkur í Flúðaskóla. Áður hefur verið greint frá Halldórsmótinu sem fram fór fyrr um daginn hvar stór hluti nemenda spreytti sig í skákíþróttinni. Að loknum hefðubundum skóladegi buðum við gestum og gangandi til okkar í vöfflukaffi og voru margir áhugasamir að skoða þær endurbætur á efri hæð skólahússins sem gerðar voru á síðustu mánuðum. Það má með sanni segja að þær endurbætur hafi heppnast einstaklega vel og allir innan veggja skólans glaðir að fá meira olnbolgarými eftir þrengingar á meðan framkvæmdir stóðu yfir.
Við í Flúðaskóla höfum nýtt dag íslenskrar tungu í þemavinnu þar sem yfirleitt 1 íslenskur listamaður, rithöfundur, ljóðskáld hefur fengið verkuldaða athygli. Þar hafa nemendur og starfsfólk kafað vel ofan í kjölin á verkum viðkomandi og unnið margvísleg verkefni tengdum viðkomandi. Að þessu sinni var ákveðið að Gunnar Helgason yrði þemað í ár og var þar af mörgu að taka eftir þann afkastamikla mann. Til að toppa daginn kom Gunnar sjálfur í heimsókn, kynnti sig vel og las upp úr bókum. Foreldrar barna Flúðaskóla fóru um skólann og tókust á við ýmis konar verkefni sem nemendur og kennarar höfðu veg og vanda af. Við viljum þakka öllum þeim foreldrum og öðrum gestum sem gáfu sér tíma til að taka þátt í deginum með okkur. Jafnframt þökkum við Gunnari Helgasyni fyrir komuna til okkar, það var sannarlega rúsínan í pylsuendanum að fá hann á staðinn til okkar.
Á facebook síðu skólans má finna nokkrar myndir frá heimsókninni.
https://www.facebook.com/media/set/?vanity=100054633330993&set=a.897859692045134