Suðurlandsmót grunnskóla í skák fór fram í dag, mánudaginn 1. mars, í Félagsheimili Hrunamanna á Flúðum. Mótið er sveitakeppni fyrir grunnskóla á Suðurlandi. Að þessu sinni var þátttaka í mótinu með allra besta móti en tæplega 100 keppendur tóku þátt fyrir hönd 7 grunnskóla.
Teflt var í tveimur flokkum. Annars vegar í 1.-7. bekk og hins vegar í 8.-10. bekk, voru 4 nemendur í hverri sveit.
Spennan var þónokkur um verðlaunasæti en svo fór að lokum að a-sveit Flúðaskóla sigraði í yngri flokknum en Grunnskólinn á Hellu í þeim eldri. Aðeins munaði einum vinning á 1. og 2. sæti í báðum flokkum. Flúðaskóli nældi sér í brons í báðum flokkum og náði sér þar með í fjögur af þeim sex verðlaunum sem í boði voru.